Read More »"/>

Opinn fyrirlestur fyrir almenning um þunglyndi

Heim / Viðburður / Opinn fyrirlestur fyrir almenning um þunglyndi
Dags.: 30. janúar, 2019
Tími: 00:00 - 00:00
Staðsetning: Hótel Nordica

Í tilefni Sálfræðiþings og Alþjóða heilbrigðisdagsins býður félagið upp á opinn fræðslufyrirlestur um þunglyndi miðvikudagskvöldið 29. mars kl. 20:30 – 22:00 á Hilton Hotel Nordica.

Á fundinum fjalla sálfræðingarnir Guðríður Þóra Gísladóttir og Helgi Héðinsson um helstu einkenni þunglyndis hjá börnum og fullorðnum og kynna árangursríkar leiðir til að ná tökum á því. Þau gefa hagnýt ráð sem geta dregið úr þunglyndi og bætt líðan og leiðbeina um hvert hægt er að leita þegar frekari aðstoðar er þörf.

Áhugi almennings á sálfræði og geðheilbrigðismálum er mikill en á síðasta ári sóttu rúmlega 600 manns fræðslufund um kvíða af sama tilefni.

Í ár varð þunglyndi fyrir valinu ekki síst vegna áherslu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á þunglyndi á þessu ári. WHO hefur það að markmiði að draga úr fordómum og þöggun varðandi sjúkdóminn meðal annars til að fleiri bæði leiti sér hjálpar og fái hjálp. Alþjóða heilbrigðisdagurinn 7. apríl er einmitt tileinkaður þunglyndi en því er spáð að ef ekki verði gripið alvarlega í taumana verði þunglyndi næststærsti valdurinn að örorku, óháð kyni og aldri, árið 2020. Sálfræðingafélag Íslands tekur heils hugar undir þessa áherslu WHO og býður til ofangreinds fundar.

Nokkrar staðreyndir um þunglyndi:

  • Þunglyndi er algengur sjúkdómur sem við getum öll fengið,  óháð kyni, aldri, búsetu, stétt eða stöðu.
  • Líkurnar á því að verða þunglyndur aukast ef við búum við fátækt, atvinnuleysi, eftir missi ástvinar eða sambandsslit, ef við erum að kljást við líkamlega sjúkdóma eða áfengis- eða vímuefnavanda.
  • Þunglyndi veldur andlegri örvæntingu og getur haft áhrif á getu fólks til að takast á við einföldustu verkefni daglegs lífs, og hefur oft afar eyðileggjandi áhrif á samband við vini og fjölskyldu.
  • Ómeðhöndlað þunglyndi getur gert fólk óvinnufært og hindrað það í að taka þátt í fjölskyldulífi og félagsstarfi.
  • Í versta falli getur þunglyndi leitt til sjálfvígs.
  • Hægt er að fyrirbyggja og meðhöndla þunglyndi. Meðferð felst yfirleitt í samtalsmeðferð eða notkun þunglyndislyfja eða hvoru tveggja.
  • Ef tekst að draga úr fordómum gagnvart þunglyndi munu fleiri leita sér hjálpar.
  • Að tala við fólk sem þú treystir getur verið fyrsta skrefið í átt að bata.

Frekari upplýsingar um fundinn eru hér.

Tengdar færslur