Sálfræðingafélag íslands er fag- og stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi og hefur eftirfarandi hlutverk samkvæmt lögum félagsins:

  1. Að semja um fagleg hagsmunamál félagsmanna.
  2. Að semja um kaup og kjör félagsmanna.
  3.  Að standa vörð um réttindi félagsmanna.
  4. Að stuðla að því að þeir sem fást við sálfræðileg störf uppfylli fyllstu kröfur að því er varðar menntun og siðgæði í starfi.
  5. Að stuðla að aukinni hagnýtingu sálfræðilegrar þekkingar og koma sálfræðilegum viðhorfum á framfæri.
  6. Að stuðla að samstarfi og samheldni milli félagsmanna.
  7. Að stuðla að tengslum við nema í sálfræði.
  8. Að eiga samstarf við önnur stéttarfélög.
  9. Að vera í samvinnu við félög sálfræðinga í öðrum löndum.

Skrifstofa Sálfræðingafélags Íslands er í Borgartúni 6, á 3. hæð, þar sem BHM og mörg aðildarfélaga bandalagsins eru með skrifstofur sínar. Á skrifstofunni starfar framkvæmdastjóri félagsins. Hægt er að ná í hann á venjulegum skrifstofutíma en þar sem hann er eini starfsmaðurinn getur verið skynsamlegt að hringja á undan sér.

Sálfræðingafélag Íslands var stofnað árið 1954. Árið 1993 var Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi stofnað og eftir það hafði Sálfræðingafélag Íslands hlutverk fagfélags sálfræðinga. Félögin voru sameinuð undir nafni Sálfræðingafélags Íslands árið 2005.

Fjöldi félagsmanna í SÍ hefur aukist jafnt og þétt. Í október 2018 voru félagar í SÍ 656 talsins og þar af höfðu 426 fulla aðild, 88 fagaðild, 119 höfðu aukaaðild að félaginu og heiðursfélagar og félagar með lífeyrisaðild voru 23. Konur eru í miklum meirihluta eða 491 talsins og karlmennirnir í minnihluta eða 165 talsins.

Félagið er stéttarfélag sálfræðinga og gerir kjarasamninga fyrir hönd sálfræðinga. Ráðgjöf til félagsmanna varðandi framkvæmd kjarasamninga er á skrifstofu félagsins. Trúnaðarmenn félagsins funda reglulega til að tryggja samfellu og tengsl skrifstofunnar og vinnustaða sálfræðinga. Í faglegu starfi félagsins eru fastir liðir áberandi. Þar má nefna árlegt Sálfræðiþing sem haldið er á vordögum, árlegan haustfund sálfræðinga og reglulega morgunverðarfundi félagsins.