Um rétt launþega til orlofstöku er fjallað í lögum um orlof nr. 30/1987. (láta opnast í sér glugga) Þar kemur fram að réttur til orlofs er tvískiptur. Annars vegar er um að ræða rétt til töku orlofs og hins vegar til launaðs orlofs. Lögin kveða einungis á um lágmark orlofs og orlofslauna og ólöglegt er að semja um minni orlofsrétt.  Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr 70/1996 er fjallað stuttlega um orlof en í kjarasamningum hefur verið samið um lengri orlofsrétt, byggðum á lífaldri eða starfsaldri. Í ráðningarsamningum er hægt að semja um orlofsrétt og fyrirkomulag en þó aldrei minni rétt en fram kemur í kjarasamningum.

Í lögum um orlof kemur fram að orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl ár hvert. Lögin kveða á um að allir starfsmenn eigi rétt á 24 daga orlofi að lágmarki (fríi) en réttur þeirra til launaðs orlofs fer eftir ávinnslu á vinnustaðnum, á undangengnu orlofsári, sem er að lágmarki 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð. Þannig hefur starfsmaður sem hóf störf þann 1. sept. 2011 áunnið sér að lágmarki 16 launaða orlofsdaga þegar nýtt orlofsár hefst þann 1. maí 2012. Sami starfsmaður á hins vegar rétt á að lágmarki 24 orlofsdögum en 8 þeirra eru launalausir hafi ekki verið samið um annað í ráðningarsamningi. Rétturinn getur svo verið lengri eftir ákvæðum kjarasamnings.

Í 4. kafla kjarasamnings SÍ við ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg fjallar um orlof. Ákvæðin eru að mestu eins og þar kemur fram að réttur til orlofs er 192 stundir (24 dagar) á ári, lengist í 216 stundir (27 dagar) við þrítugt og í 240 stundir (30 dagar) við 38 ára aldur.

Ef orlof er ekki tekið á sumarorlofstímabili lengist sá hluti sem eftir verður um 25% hjá ríkinu og Reykjavíkurborg en um 33% hjá sveitarfélögunum. Þar er munurinn sá að lengingin fæst einungis ef stofnunin fer fram á að orlofið sé ekki tekið að fullu).

Mun nánari upplýsingar um orlofsrétt er að finna í kjarasamningunum.