Read More »"/>

Styrkveiting úr Minningar- og vísindasjóði Arnórs Björnssonar

Heim / Fréttir / Styrkveiting úr Minningar- og vísindasjóði Arnórs Björnssonar

Föstudaginn 6. maí sl. var veittur styrkur úr Minningar- og Vísindasjóði Arnórs Björnssonar til sálfræðirannsókna en sjóðurinn er að því er best er vitað eini sjóðurinn hér á landi, sem veitir eingöngu styrki til rannsókna í sálfræði.
Í þetta sinn var veittur styrkur að upphæð 1 milljón króna til Ólínu G. Viðarsdóttur sálfræðings.
Rannsókn Ólínu heitir Vitrænt mat og endurhæfing ungs fólks eftir geðrof. Markmið vitrænnar endurhæfingar er að bæta vitræna ferla s.s. athygli, minni, stýrifærni og félagslegan skilning sem talið er að geti aukið færni í daglegu lífi og þar með lífsgæði fólks. Nýlegar safngreiningar benda til árangurs af vitrænni endurhæfingu fyrir fólk með geðrofssjúkdóma, en ekki er ljóst hvaða tegund vitrænnar endurhæfingar hefur mest áhrif og hvað einkennir þá einstaklinga sem hafa hvað mest gagn af endurhæfingunni. Rannsóknin mun bæta við þann þekkingargrunn sem er að byggjast upp á árangri af vitrænni endurhæfingu fyrir ungt fólk með alvarlega geðsjúkdóma. Sótt var  um styrk til annars hluta rannóknarverkefnisins, meðferðarhlutans, í styrkumsókninni.
Margir kollegar voru viðstaddir styrkveitinguna, fyrri styrkþegar og fjölskylda Arnórs en hann hefði einmitt orðið 50 ára þennan dag hefði hann lifað.
Meðfylgjandi eru tvær myndir frá afhendingu styrksins.
Vakin er athygli á að hægt er að kaupa minningarkort til styrktar sjóðnum. Frekari upplýsingar um sjóðinn og kortin er að finna hér.

Tengdar færslur