Read More »"/>

Fréttatilkynning vegna alvarlegrar stöðu á geðsviði LSH

Heim / Fréttir / Fréttatilkynning vegna alvarlegrar stöðu á geðsviði LSH

Þessi fréttatilkynning var send fjölmiðlum í morgun:
Sálfræðingafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af löngum biðlistum á Göngudeild Geðsviðs LSH. Eins og fram hefur komið í fréttum er lengsti biðtíminn eftir einstaklingsviðtölum við sálfræðinga vegna þunglyndis og kvíða. Að mati Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar er þunglyndi og kvíði talin meðal þeirra heilbrigðisvandamála íþyngja samfélaginu mest. Þess ber einnig að gæta að klínískar leiðbeiningar sem eru samþykktar bæði af spítalanum sjálfum og landlækni kveða á um sálfræðimeðferð ætti að vera fyrsta meðferð við flestum tegundum þunglyndis og kvíða. Heilbrigðisyfirvöld geta tæpast skýlt sér bakvið fjárskort og niðurskurð þegar kemur að geðrænni heilsu fólks því rannsóknir hafa ítrekað sýnt að kostnaður við raunsannaða meðferð við þunglyndi og kvíða skilar sér fljótt og örugglega aftur í ríkissjóð. Auk þessa er meðferð þunglyndis og kvíða jafnframt forvörn gegn ýmsum líkamlegum sjúkdómum sem eru kostnaðarsamir fyrir samfélagið. Sálfræðingafélagið vill hvetja heilbrigðisyfirvöld til að tryggja að farið sé eftir þeim klínísku leiðbeiningum sem settar hafa verið hér á landi. Slíkt er til hagsbóta fyrir sjúklinga, aðstandendur og ríkissjóð. Sálfræðingafélagið hvetur velferðarráðherra til að beita sér fyrir því að göngudeild geðsviðs Landspítalans verði sérstaklega styrkt með fleiri stöðugildum sálfræðinga. Það ætti að vera fyrsta aðgerð til að bæta úr þeim vanda sem við blasir.

Tengdar færslur