Read More »"/>

Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir er heiðursverðlaunahafi SÍ 2016

Home / Fréttir / Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir er heiðursverðlaunahafi SÍ 2016

Heiðursverðlaun Sálfræðingafélags Íslands voru veitt í annað sinn á áttunda Sálfræðiþinginu sem haldið var þann 8. apríl. sl.
Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sálfræðingur og prófessor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri er heiðursverðlaunahafi félagsins árið 2016 og er sannarlega vel að viðurkenningunni komin. Sigrún var tilnefnd af breiðum hópi sálfræðinga þegar óskað var eftir tilnefningum frá félagsmönnum en lögð var áhersla á að þeir sem tilnefndir væru hefðu innleitt nýjungar eða þróað verkefni í þágu sálfræðinnar, hefðu skarað fram úr og verið öðrum fyrirmynd í starfi.
Sigrún er fædd árið 1946. Hún lauk kennaraprófi árið 1966, tók Fil. kand próf í sálfræði og uppeldisfræði við Háskólann í Gautaborg árið 1973 og lauk embættisprófi frá sama skóla árið 1975. Sigrún lauk doktorsnámi frá LaTrobe háskólanum í Melbourne Ástralíu árið 2001.
Sigrún á að baki langan og farsælan og fjölbreyttan feril sem sálfræðingur og fræðimaður Hún hóf störf sem sálfræðingur árið 1976 og hefur starfað sem sálfræðingur við skóla, framhaldsskólakennari og námsráðgjafi, var í lykilhlutverkum hjá Svæðisstjórn málefna fatlaðra á Norðurlandi eystra og forstöðumaður vistheimilisins Sólborgar um árabil. Frá árinu 1993 hefur Sigrún starfað við Háskólann á Akureyri þar sem hún gegnir nú prófessorsstöðu.  Að auki hefur Sigrún lengi rekið eigin sálfræðistofu. Á starfsferli sínum hefur Sigrún  víða verið í forsvari og gegnt lykilhlutverkum. Sigrún hefur verið í vísindanefnd Sálfræðiþings frá árinu 2013.
Sigrún hefur mikið látið sig varða málefni samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans ungmenna, bæði í fræðistörfum og í samfélaginu vítt og breitt og hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar í mannréttindabaráttu þessarra minnihlutahópa.
Sigrún hefur  verið sterkur bakhjarl fyrir sálfræðiþjónustu og sálfræðinga á Norðurlandi í áratugi og verið góð fyrirmynd.

Related Posts