Read More »"/>

Yfirlýsing frá BHM vegna hækkunar launa forstjóra LSH

Home / Fréttir / Yfirlýsing frá BHM vegna hækkunar launa forstjóra LSH

Yfirlýsing stjórnar BHM vegna launahækkunar forstjóra LSH.
Stjórn BHM telur nýlega launahækkun forstjóra LSH staðfesta að laun háskólamenntaðra sérfræðinga hjá ríkinu standast ekki samanburð, hvorki við sambærileg störf á almennum vinnumarkaði né þegar horft er til nágrannalanda.
Samdráttur í ríkisrekstri undanfarin ár, fækkun starfsfólks, aukið álag og launafrystingar hafa dregið mjög úr aðdráttarafli ríkisins sem vinnustaðar fyrir háskólamenntaða sérfræðinga. Starfsfólk hefur sýnt gífurleg þolgæði við erfiðar aðstæður og ekki er lengur hægt að ætlast til þess að verkefni og álag aukist en laun standi í stað eða lækki. Því er það gleðiefni að velferðarráðherra hafi séð ástæðu til að launa sérstaklega þau verk sem hann taldi falla utan starfslýsingar forstjóra LSH. Dæmin um slíkt eru óteljandi og er stjórn BHM því fyllilega fylgjandi að vinnuframlagi umfram starfslýsingu sé mætt með aukagreiðslum.
Stjórn BHM fagnar vilja stjórnvalda til að bæta launakjör sérfræðinga í opinberum störfum og færa þau nær því að vera samanburðarhæf og bendir um leið á að mikið verk er enn óunnið til að svo megi verða. Stjórn BHM deilir þeim ótta með velferðarráðherra að ella flytjist hæft vel menntað fólk í enn auknum mæli úr landi í leit að bættum kjörum.
Í kjarasamningum BHM við ríkið frá árinu 2011 sammæltust aðilar um að endurskoða launakerfi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna í þeim tilgangi að gera ríkið að samkeppnishæfum og eftirsóknarverðum vinnustað. Sú vinna er nú langt á eftir áætlun.
Í yfirlýsingu sem fylgir umræddum kjarasamningi, lýstu forsætis- og fjármálaráðherra vilja stjórnvalda til að meta með markvissum hætti líðan og heilsu starfsfólks ríkisins í kjölfar álags vegna niðurskurðar og samdráttar eftir hrun. Ekki vottar enn fyrir upphafi þess starfs þrátt fyrir umleitanir af hálfu BHM.
Þá er víðast hvar ólokið gerð stofnanasamninga, sem eru hluti kjarasamnings.
Stjórn BHM krefst þess að stjórnvöld standi við bókanir og yfirlýsingar með kjarasamningum og sýni þannig í verki þann vilja sinn að gera ríkið að aðlaðandi vinnustað fyrir háskólamenntað fólk.

Related Posts