Sálfræðingafélag Íslands hefur orðið við beiðni viðsemjenda, Samningarnefndar ríkisins (SNR), Sambands Íslenskra Sveitarfélaga og Samninganefndar Reykjavíkurborgar um að gera hlé á kjaraviðræðum fram yfir verslunarmannahelgi. Nýjar viðræðuáætlanir hafa verið undirritaðar þar sem kveðið er á um innágreiðslu/ur vegna tafa sem hafa orðið á kjaraviðræðum. Innágreiðslan kemur til útborgunar 1. ágúst nk. að upphæð 105.000 kr. fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar og ríkisins og stefnt er að því að kjarasamningar náist eigi síðar en 15. september 2019
Innágreiðslur eru tvær fyrir starfsmenn sveitarfélaga, 100.000 kr. til útborgunar 1. ágúst og 80.000 kr. til útborgunar 1. nóvember og stefnt er að því að kjarasamningur náist eigi siðar en 15. nóvember 2019. Upphæðir sem hér um ræðir greiðast hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019.
Greiðslurnar eru hluti af kostnaðarmati væntanlegra kjarasamninga sem þýðir að þær munu koma til frádráttar mögulegum afturvirkum launahækkunum frá 1. apríl. Með greiðslunum eru hins vegar ekki lagðar línur um væntanlegar launahækkanir í komandi samningum, en sem kunnugt er hafa BHM-félögin hafnað flötum krónutöluhækkunum.