Vinnureglur siðanefndar Sálfræðingafélags Íslands
Endurskoðaðar eftir aðalfund SÍ í febrúar 2020
Kafli 1 Skipan siðanefndar
1. gr.
Um skipan siðanefndar fer skv. lögum Sálfræðingafélags Íslands (SÍ)
2. gr.
Það skal vera almenn vinnuregla að aðeins taki einn nýr fulltrúi sæti í siðanefnd þegar kosning fer fram. Fulltrúar í siðanefnd skulu að jafnaði hafa umtalsverða starfsreynslu sem sálfræðingar.
Kafli 2 Verkefni siðanefndar
3. gr.
Almennir félagsmenn, fagdeildir og stjórn félagsins geta leitað upplýsinga hjá siðanefnd um hvaðeina sem tengist siðareglum félagsins (netfang siðanefndar er sidanefnd@sal.is). Siðanefnd býður félagsmönnum upp á ráðgjöf (sjá nánar á heimasíðu SÍ).
4. gr.
Siðanefnd skal leitast við að efla siðferðisvitund sálfræðinga og koma á framfæri nauðsynlegum upplýsingum og fræðslu til að þau markmið náist. Siðanefnd stendur fyrir árlegu siðareglunámskeiði fyrir félagsmenn SÍ.
5. gr.
Telji skjólstæðingur sálfræðings í SÍ að viðkomandi sálfræðingur hafi í starfi sínu gerst brotlegur við siðareglur félagsins getur hann sent erindi um málið til siðanefndar (sjá nánar á heimasíðu SÍ um vísun mála til siðanefndar). Siðanefnd skal fjalla um erindi sem henni berast og snerta siðferði félagsmanna í starfi þeirra sem sálfræðingar. Einnig getur stjórn félagsins beint erindum til nefndarinnar til umfjöllunar. Siðanefnd tekur mál til meðferðar að eigin frumkvæði, telji hún þess þörf.
Kafli 3 Vinnuaðferðir og vinnsla erinda til siðanefndar
6. gr.
Fundir siðanefndar eru haldnir að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Nefndin hittist ekki yfir sumartímann nema um brýn erindi sé að ræða. Formaður boðar til funda siðanefndar. Fulltrúar í siðanefnd skulu í annan tíma vera tilbúnir að veita félagsmönnum leiðbeiningar um efni sem varðar siðareglur. Félagsmaður skal í því tilviki upplýstur um að leiðbeiningar séu ekki í nafni siðanefndar og skrifleg fyrirspurn skuli berast nefndinni sé um vafaatriði að ræða.
7. gr.
Um vanhæfi fulltrúa siðanefndar gilda ákvæði 3. gr. Stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
3. gr. Vanhæfisástæður. Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls: 1. Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila. 2. Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. 3. Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í 2. tölul. 4. Á kærustigi hafi hann áður tekið þátt í meðferð málsins á lægra stjórnsýslustigi. Það sama á við um starfsmann sem fer með umsjónar- eða eftirlitsvald hafi hann áður haft afskipti af málinu hjá þeirri stofnun sem eftirlitið lýtur að. 5. [Ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans skv. 2. tölul. eða sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir. Sama á við ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Verði undirmaður vanhæfur til meðferðar máls verða næstu yfirmenn hans aftur á móti ekki vanhæfir til meðferðar þess af þeirri ástæðu einni.]1) 6. Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir, eðli málsins er með þeim hætti eða þáttur starfsmanns eða nefndarmanns í meðferð málsins er það lítilfjörlegur að ekki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun.
Ef allir fulltrúar siðanefndar eru vanhæfir getur siðanefnd kallað til varanefndar.
8. gr.
Fulltrúi siðanefndar getur ekki skorast undan að segja álit sitt. Sé álit hans á annan veg en meirihlutans skal hann skila séráliti.
9. gr.
Siðanefnd getur leitað til sérfróðs aðila um álitsgerð eða samvinnu sé talin ástæða til.
10. gr.
Siðanefnd skal halda fundargerðarbók á fundum sínum þar sem fram koma samþykktar ákvarðanir ásamt rökstuðningi. Fundargerð skal staðfest með undirskrift þeirra sem þátt tóku í niðurstöðunni.
11. gr
Fundir siðanefndar eru haldnir fyrir luktum dyrum. Siðanefndin, sem og sérfróðir aðilar sem leitað hefur verið til eru bundnir þangarskyldu.
12. gr.
Siðanefnd skal leggja fram ársskýrslu á aðalfundi félagsins. Í skýrslunni skal geta um fjölda, umfang og eðli þeirra mála sem nefndin hefur haft til meðferðar og niðurstöður mála sem leidd eru til lykta á árinu. Einnig skal í skýrslunni koma fram fjöldi erinda sem borist hafa til ráðgjafar siðanefndar.
13. gr.
Fundargerðir siðanefndar, erindi sem nefndin hefur tekið til meðferðar, úrskurðir, skjöl sem nefndin aflar eða henni eru látin í té, sem og skjöl sem verða til vegna málsmeðferðarinnar skulu geymd í húsnæði SÍ og varðveitt á þann hátt að óviðkomandi hafi ekki aðgang að þeim. Siðanefnd útbýr jafnframt eintak af úrskurðum sínum í ónafngreindu formi sem varðveitt er með öðrum gögnum málsins.
14. gr.
Gögn siðanefndar (sjá 13. gr.) skulu geymd í skjalasafni í 10 ár. Að þeim tíma liðnum skal einungis geyma fundargerðir og úrskurði í ónafngreindu formi.
Kafli 4 Meðferð erinda fyrir siðanefnd
15. gr.
Öllum erindum til siðanefndar skal komið til formanns nefndarinnar. Formaður tekur erindið fyrir á næsta fundi nefndarinnar eða boðar sérstaklega til fundar ef þörf er á. Að höfðu samráði við aðra nefndarmenn er tekin ákvörðun um hvort erindið skuli tekið til meðferðar. Endursenda skal erindi sem vísað hefur verið frá.
16. gr.
Siðanefnd ber ekki skylda til að taka nafnlaus erindi til meðferðar.
Erindi sem varða atvik sem áttu sér stað fyrir meira en 10 árum eru ekki tekin til meðferðar.
Siðanefnd getur vísað erindi frá ef meira en tvö ár eru liðin frá því að atburður átti sér stað, atburðurinn er lítils háttar að mati siðanefndar og/eða sannanir eða vitnisburður ónógur.
Að öllu jöfnu tekur siðanefnd ekki erindi til meðferðar vegna mála sem rekin eru fyrir dómstólum á sama tíma.
17. gr.
Þegar ákveðið hefur verið að taka erindi til meðferðar velur nefndin þrjá málsmeðferðaraðila úr hópi fulltrúa siðanefndar til að vinna málið. Um vanhæfi siðanefndarfulltrúa vísast í gr. 7. Einn af þremur málsmeðferðaraðilum leiðir málið og ber ábyrgð á framgangi þess. Siðanefnd ber að taka erindi til meðferðar innan 30 daga, nema eðlilegir annmarkar hindri slíkt, t.d. sumarleyfi nefndarinnar.
18. gr.
Um leið og erindi er tekið til meðferðar skal málsaðilum (málshefjanda og gagnaðila) tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar. Gagnaðila skal jafnframt sent afrit af erindinu með fylgiskjölum, nema því aðeins að siðanefnd meti það svo að hagsmunir þriðja aðila standi í vegi. Gögn sem gagnaðila hefur verið meinaður aðgangur að verða ekki lögð til grundvallar niðurstöðu. Honum skal einnig gefið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri innan þrjátíu daga eftir að hann fékk upplýsingarnar í hendur.
19. gr.
Siðanefnd skal upplýsa málshefjanda og gagnaðila um siðareglurnar og um þær vinnureglur sem í gildi eru.
20. gr.
Siðanefnd metur sjálfstætt hversu umfangsmikil meðferð málsins skuli vera, hvaða gögn hafa þýðingu fyrir málið og hvaða göng eru notuð við málsmeðferðina.
21. gr.
Við meðferð máls býður siðnefnd sálfræðingi alltaf upp á fund þar sem honum gefst tækifæri til að gera grein fyrir sinni hlið mála. Sálfræðingur er upplýstur um að hann eigi rétt á að hafa með sér aðstoðarmann. Aðstoðarmaður hefur málfrelsi. Fulltrúi siðanefndar ritar fundargerð sem send er sálfræðingi til staðfestingar og athugasemda. Munnlegar upplýsingar sem fást á fundum og/eða í símtölum skulu skráðar niður og sendar viðkomandi til skriflegrar staðfestingar ef efnið hefur að geyma upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir vinnslu málsins.
22. gr.
Málsaðilar bera sjálfir þann kostnað sem þeir stofna til vegna erinda sem eru til meðferðar hjá siðanefnd. Áður samþykktur kostnaður málsaðila sem verður til vegna ákvarðana nefndarinnar er greiddur af SÍ. Ferðakostnaður eða annar beinn kostnaður sem til fellur vegna starfa fulltrúa siðanefndar skal greiddur af SÍ.
23. gr.
Málsaðilar hafa rétt á að kynna sér öll gögn máls, nema því aðeins að ákvæði þessara reglna eða sérstakar ástæður mæli gegn því. Niðurstaða siðanefndar verður aðeins grundvölluð á gögnum sem báðum málsaðilum hefur verið heimilað að kynna sér.
24. gr.
Ef málsaðili hafnar samvinnu við meðferð máls eða skilar ekki umbeðinni greinargerð innan tilskilins tíma, getur siðanefnd að eigin ákvörðun annað hvort vísað erindi frá eða komist að niðurstöðu á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir.
25. gr.
Þegar siðanefnd hefur komist að niðurstöðu skulu bæði málshefjandi og gagnaðili fá skriflegar upplýsingar um niðurstöðuna. Málsaðilum skal sent niðurstöðubréf/úrskurður nefndarinnar, málshefjanda frumrit en gagnaðila afrit.
Kafli 5 Niðurstöður siðanefndar
26. gr.
Í niðurstöðu siðanefndar skal lagt mat á fagleg markmið sálfræðingsins; ásetning og hvort gerðir hans séu almennt til þess fallnar að hafa neikvæðar afleiðingar fyrir skjólstæðing/a hans (sjá skilgreiningu á hugtakinu „skjólstæðingur“ í siðareglum).
27. gr.
Siðanefnd getur komist að eftirfarandi niðurstöðum:
1. Vísað erindi frá án meðferðar (sjá gr. 15 – 16).
2. Látið erindi falla niður að lokinni meðferð. Í því tilviki hefur ekki verið um að ræða brot á siðareglum.
3. Minniháttar brot á siðareglum. Ráðgjöf siðanefndar til sálfræðings.
4. Alvarlegt brot á siðareglum. Skrifleg áminning siðanefndar.
Kafli 6 Upplýsingaskylda siðanefndar
28. gr.
Fái siðanefnd rökstuddan grun, meðan hún hefur mál til meðferðar um að fyrir liggi aðstæður sem kunni að leiða til refsiábyrgðar og/eða viðbragða skv. lögum um landlækni skal siðanefnd þegar í stað senda málið þar til bærum yfirvöldum til skoðunar.