Lög Sálfræðingafélags Íslands samþykkt á aðalfundi félagsins, 24. febrúar 2021
I. kafli Nafn og hlutverk
1. gr. Heiti félagsins
Félagið heitir Sálfræðingafélag Íslands, skammstafað SÍ. Félagið er fag- og stéttarfélag sálfræðinga. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði tekur til alls landsins. Félagið á aðild að Bandalagi háskólamanna (BHM) og sjóðum BHM í samræmi við gildandi kjarasamninga.
2. gr. Hlutverk félagsins
2.1. Að semja um og standa vörð um fagleg hagsmunamál félagsmanna.
2.2. Að semja um kaup og kjör félagsmanna.
2.3. Að standa vörð um starfskjör og réttindi félagsmanna.
2.4. Að stuðla að því að félagsmenn uppfylli fyllstu kröfur að því er varðar menntun og siðgæði samkvæmt siðareglum SÍ.
2.5. Að stuðla að aukinni hagnýtingu sálfræðilegrar þekkingar og koma sálfræðilegum viðhorfum á framfæri.
2.6. Að stuðla að samstarfi og samheldni milli félagsmanna.
2.7. Að stuðla að tengslum við nema í sálfræði.
2.8. Að eiga samstarf við önnur stéttarfélög.
2.9. Að vera í samvinnu við félög sálfræðinga í öðrum löndum.
II. kafli Aðild að félaginu og úrsögn
3. gr. Aðild
Aðild að SÍ geta þeir einungis fengið sem hafa leyfi Landlæknis til þess að kalla sig sálfræðinga og aðrir sálfræðimenntaðir sem tilgreindir eru í lögum þessum.
Félagsmenn SÍ skulu fara að lögum félagsins, reglum og siðareglum svo og ákvörðunum aðalfunda.
Aðild að SÍ getur verið með eftirfarandi hætti:
3.1. Fag- og stéttarfélagsaðild þeirra sálfræðinga sem greiða stéttarfélagsgjöld til SÍ. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í fag- og stéttarfélagsmálum.
3.2. Fagfélagsaðild þeirra sálfræðinga sem greiða fagfélagsgjald til SÍ. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í öllum málum félagsins öðrum en stéttarfélagsmálum.
3.3. Fræðaaðild þeirra sem hafa doktorspróf í sálfræði og kenna sálfræði í háskóla. Aðildin veitir rétt til þátttöku í öllum málum félagsins öðrum en stéttarfélagsmálum.
3.4. Aukaaðild a) sálfræðinga sem tímabundið starfa erlendis og b) sálfræðinema með BA eða BS-próf, í framhaldsnámi í sálfræði til starfsréttinda. Aukaaðildin veitir réttindi til þátttöku í starfi félagsins en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.
3.5. Lífeyrisaðild þeirra sálfræðinga sem þiggja lífeyri. Aðildin veitir full félagsréttindi en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.
3.6. Heiðursaðild þeirra sálfræðinga sem félagið hefur útnefnt heiðursfélaga SÍ.
Afrit af starfsleyfi eða prófskírteini (nemar) skulu fylgja aðildarumsókn.
4. gr. Félagsgjöld
Aðalfundur ákveður árgjöld félagsmanna sbr. 3. grein.
Stjórn er heimilt að undanþiggja félagsmann félagsgjöldum, ef veikindi eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi sem hann gerir stjórn grein fyrir.
Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald til félagsins í eitt ár samfleytt án gildra ástæðna, sem hann gerir stjórn grein fyrir, telst hann ekki lengur félagsmaður, enda hafi hann áður verið krafinn um greiðslu.
5. gr. Úrsögn
Úrsögn úr SÍ skal tilkynna stjórn félagsins skriflega og telst hlutaðeigandi genginn úr félaginu þremur mánuðum eftir að úrsögn berst, enda sé hann skuldlaus við félagið og mál honum viðkomandi ekki til umfjöllunar hjá siðanefnd SÍ.
III. kafli Aðalfundur
6. gr. Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Fundinn skal halda í aprílmánuði ár hvert. Skal hann auglýstur á heimasíðu félagsins og boðaður félagsmönnum með tölvupósti. Fundarboð skal sent með þriggja vikna fyrirvara hið minnsta miðað við dagsetningu tölvupósts. Stjórn SÍ ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar sem er að jafnaði staðfundur. Stjórn SÍ getur ákveðið að fundurinn verði rafrænn eða sem staðfundur og rafrænn.
Tillögur um lagabreytingar skulu fylgja aðalfundarboði.
Aðalfundur er lögmætur og ályktunarhæfur sé löglega til hans boðað. Kosningar til trúnaðarstarfa og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar skulu vera leynilegar komi fram um það tillaga með tveimur meðmælendum. Einfaldur meirihluti ræður í atkvæðagreiðslu nema annað sé tekið fram í lögum.
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda.
7. gr. Dagskrá aðalfundar
Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál vera á dagskrá:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Skýrslur nefnda, ráða, fagdeilda og undirfélaga félagsins.
3. Reikningar félagsins, nefnda og sjóða.
4. Fjárhagsáætlun og ákvörðun árgjalds.
5. Laga- og reglubreytingar.
6. Kosning / tilkynning um kjör í embætti og stjórn
7. Kosning í nefndir og stjórnir sjóða.
8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
9. Kynning á starfsáætlun næsta árs.
10. Önnur mál.
IV. kafli Stjórn og skipulag
8. gr. Stjórn
Stjórn SÍ skipa 7 fulltrúar: formaður, varaformaður, gjaldkeri og fjórir meðstjórnendur. Kjörtímabil er 2 ár. Formaður skal ekki sitja lengur en tíu ár samfleytt í embætti.
Formaður, varaformaður og gjaldkeri skulu kosnir sérstaklega. Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér ritara en þó skal formaður eða varaformaður leiða samninganefndir SÍ.
Kjör stjórnar fer fram þannig að á hverju ári skal kjósa hluta stjórnar, þannig að annað hvort ár er kosinn formaður og tveir meðstjórnendur en varaformaður, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur hitt árið. Hætti fulltrúi í stjórn á miðju kjörtímabili skal sá sem er kjörinn í staðinn ljúka kjörtímabili þess sem hætti.
Þegar embætti formanns er laust skal auglýsa eftir framboðum til formanns ekki síðar en í fyrstu viku janúar það ár. Framboð til formanns skulu berast félaginu ekki síðar en tveimur vikum síðar og eru þau kynnt félagsmönnum með tölvupósti og á heimasíðu félagsins. Ef fleiri en einn er í framboði til formanns skal kosning fara fram í janúar með rafrænni kosningu meðal allra atkvæðisbærra félagsmanna og niðurstaðan kynnt félagsmönnum í kjölfarið. Framboð til stjórnar, annarra en formanns, skulu berast félaginu ekki síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og eru þau kynnt félagsmönnum með tölvupósti og á heimasíðu félagsins. Ef fleiri en einn er í framboði til hvers embættis skal kosning fara fram með rafrænni kosningu meðal allra atkvæðisbærra félagsmanna fyrir aðalfund og skulu úrslit tilkynnt á aðalfundi. Ef ekkert framboð berst til embættis fyrir aðalfund skal á aðalfundi kallað eftir framboðum til embættis og kosið um það.
Af sjö fulltrúum í stjórn skulu a.m.k. fimm og þar af formaður, varaformaður og gjaldkeri hafa fag- og stéttarfélagsaðild sbr. 3.1.
Um hæfi stjórnarmanna fer eftir efnisreglum hliðstæðum þeim sem eru í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Stjórn SÍ er heimilt að ráða starfsmann til félagsins. Starfsmaður félagsins hefur tillögurétt og málfrelsi á fundum stjórnar. Starfsmaður starfar á ábyrgð stjórnar SÍ.
Stjórn skipar í aðrar trúnaðarstöður en þær sem tilgreindar eru í lögunum.
9. gr. Trúnaðarmenn
Stjórn skal beita sér fyrir því að trúnaðarmenn séu kjörnir sbr. V. kafla laga nr. 94/1986 og I. kafla laga nr. 80/1938. Trúnaðarmenn SÍ mynda trúnaðarmannaráð sem er stjórn og samninganefndum SÍ til fulltingis.
10. gr. Reikningsár
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
11. gr. Félagsfundir
Stjórn SÍ boðar til félagsfunda að minnsta kosti tvisvar á ári. Þeir skulu boðaðir á sama hátt og aðalfundur.
Stjórn félagsins er skylt að boða til félagsfundar ef a.m.k. 10% félagsmanna með atkvæðisrétt krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Skal boðað til hans á sama hátt og aðalfundar. Félagsfundir taka ekki ákvarðanir nema stjórn SÍ feli þeim það en geta ályktað um stjórn og stefnu félagsins.
12. gr. Nefndir
Nefndir starfa á grundvelli laga SÍ og hlíta eigin starfsreglum sem skulu staðfestar af stjórn SÍ. Nefndir starfa á ábyrgð SÍ að undanskilinni siðanefnd sem formaður siðanefndar ber faglega ábyrgð á. Félagið ber fulla og óskoraða fjárhagslega ábyrgð á störfum nefnda. Nefndum er óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga nema með heimild stjórnar SÍ. Stjórn félagsins skal halda samráðsfund einu sinni á ári með formönnum nefnda. Stjórn SÍ skipar fulltrúa í nefndir eftir aðalfund, takist ekki að manna nefndir að fullu.
12.1. Samninga- og samstarfsnefndir
Stjórn skipar í samninganefndir gagnvart einstökum viðsemjendum. Hlutverk samninganefnda er að annast kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna. Kjarasamningar skulu samþykktir af samninganefndum og undirritaðir af fulltrúum nefndanna. Miðlæga kjarasamninga skal bera undir atkvæði viðkomandi félagsmanna til samþykktar eða synjunar.
Stjórn skipar samstarfsnefndir samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.
12.2. Prófanefnd
Í félaginu skal starfa 5 manna prófanefnd kosin á aðalfundi. Aðalfundur kýs formann sérstaklega. Kjörtímabil nefndarinnar er tvö ár. Hlutverk nefndarinnar er að hafa yfirlit um sálfræðileg próf sem notuð eru hér á landi, stuðla að og vera til ráðgjafar við þróun og staðfærslu sálfræðilegra prófa.
12.3. Fagráð
Í félaginu skal starfa 5 manna fagráð kosið á aðalfundi. Aðalfundur kýs formann sérstaklega. Kjörtímabil ráðsins er tvö ár. Hlutverk fagráðs er að vera stjórn SÍ til ráðgjafar og aðstoðar þegar þurfa þykir varðandi lög og reglugerðir um sálfræðinga og nám og námsmat.
12.4. Ritstjórn Sálfræðiritsins
SÍ gefur út tímarit. Stjórn félagsins ræður launaðan ritstjóra úr röðum sálfræðinga til tveggja ára í senn. Ritstjóri velur menn í ritnefnd sér til fulltingis.
12.5. Siðanefnd
Í félaginu skal starfa fimm manna siðanefnd, kosin á aðalfundi. Aðalfundur kýs formann sérstaklega. Kjörtímabil nefndarmanna er fjögur ár. Nefndarmenn skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Nefndin starfar eftir siðareglum norrænna sálfræðinga og gildandi verklagsreglum.
Hlutverk siðanefndar er:
1. Að vera félagsmönnum til ráðgjafar og leiðbeiningar um siðamál.
2. Að taka við og fjalla um kvartanir um meint brot félagsmanna á siðareglum.
3. Að úrskurða um réttmæti kvörtunar með hliðsjón af lögum og siðareglum félagsins.
4. Vinna að tillögugerð að endurskoðun á siðareglunum, m.a. með því að safna dæmum um
siðferðileg álitamál sem upp koma í starfi sálfræðinga.
Nefndin skal gefa félagsmanni færi á að skýra og verja mál sitt. Úrskurður er gildur, standi
meirihluti siðanefndar að honum. Nefndarmenn eru fjárhagslega skaðlausir af störfum nefndarinnar, þ.m.t. vegna útgjalda við dómsmál.
12.6. Fræðslunefnd.
Í félaginu skal starfa 5 manna fræðslunefnd kosin á aðalfundi. Aðalfundur kýs formann sérstaklega. Kjörtímabil nefndarinnar er tvö ár. Hlutverk nefndarinnar er að meta þörf fyrir fræðslu og og standa að reglulegum fræðslufundum og námskeiðum um málefni sem snerta félagsmann og störf þeirra.
13. gr. Vinnudeilusjóður
Félagið á vinnudeilusjóð. Skal honum kjörin þriggja manna stjórn á aðalfundi og starfar hann samkvæmt reglum er aðalfundur setur. Í þeim reglum skal kveðið á um fastan tekjustofn og eftir atvikum óreglulegar tekjur vinnudeilusjóðs sem hlutfall af félagsgjöldum. Stjórn vinnudeilusjóðs er heimilt að gerast aðili að vinnudeilusjóði BHM.
14. gr. Vísindasjóður
Félagið á vísindasjóð. Skal honum kjörin þriggja manna stjórn á aðalfundi og starfar hann samkvæmt kjarasamningi og þeim reglum sem aðalfundur setur. Í kjarasamningi er kveðið á um fastan tekjustofn vísindasjóðs.
15. gr. Undirfélög
Heimilt er í samráði við stjórn að stofna undirfélög SÍ. Undirfélög eru félög hópa sálfræðinga sem hafa ákveðna sérstöðu s.s. að starfa á ákveðnu landssvæði eða sinna ákveðnum aldurshópi.
Undirfélög setja sér starfsreglur sem skulu staðfestar af stjórn SÍ. Í starfsreglum undirfélaga skal kveðið á um að þau séu undirfélög SÍ og að félagsmenn skuli vera félagar í SÍ. Stefna og markmið undirfélagana skulu vera í samræmi við lög og stefnu SÍ. Undirfélög hafa sjálfsstæðan fjárhag og geta ekki skuldbundið SÍ fjárhagslega.
Þegar starfsreglur hafa verið samþykktar af stjórn skal stofnun undirfélaga tilkynnt á aðalfundi SÍ til samþykktar.
16. gr. Fagdeildir
Heimilt er í samráði við stjórn SÍ að stofna fagdeildir innan SÍ. Fagdeildirnar eru helgaðar sérstökum sviðum sálfræðinnar eða sálfræðistarfa.
Fagdeildirnar setja sér starfsreglur sem skulu staðfestar af stjórn SÍ. Í starfsreglum fagdeilda skal kveðið á um að þær séu fagdeild innan SÍ og að félagsmenn skuli vera félagar í SÍ. Stefna og markmið fagdeildanna skulu vera í samræmi við lög og stefnu SÍ. Stjórn SÍ er heimilt að styrkja starf fagdeilda fjárhagslega en fagdeildirnar geta ekki skuldbundið SÍ fjárhagslega.
Þegar starfsreglur hafa verið staðfestar af stjórn skal stofnun fagdeilda tilkynnt á aðalfundi SÍ til samþykktar.
17. gr. Verkfallsboðun
Stjórn félagsins ákveður hvenær leitað skuli eftir samþykki félagsmanna til verkfallsboðunar. Um framkvæmdina að öðru leyti skal farið eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 94/1986 eða lögum nr. 80/1938 (með síðari breytingum) eftir því sem við á.
18. gr. Félagsslit
Slíta má félaginu á fundi, sem hefur verið til þess boðaður sérstaklega, að ósk 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna, enda sæki 2/3 hlutar atkvæðisbærra félagsmanna fundinn.
19. gr. Lagabreytingar
Lögum félagsins má því aðeins breyta að 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna greiði því atkvæði á lögmætum aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu kynntar sérstaklega í aðalfundarboði.
20. gr. Eldri lög
Með samþykkt þessara laga falla úr gildi eldri lög félagsins.