Menntamálaráðuneytið gaf upphaflega út árið 1990 reglugerð um sérfræðiviðurkenningu sálfræðinga. Þegar sálfræðingar urðu heilbrigðisstétt færðist reglugerð um sérfræðiviðurkenningu sálfræðinga til Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, nú Velferðarráðuneytisins. Landlæknisembættið hefur haft umsjón með útgáfu sérfræðileyfa eftir lagabreytingu árið 2008.
Kröfur til sérfræðiviðurkenningar sálfræðinga
Um sérfræðileyfi sálfræðinga er nú fjallað í reglugerð um sálfræðinga nr. 1130/2012 sem tók gildi þann 1. janúar 2013 í framhaldi af nýjum lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Nýja reglugerðin leysti af hólmi lög um sálfræðinga nr. 40/1976 og reglugerð um sérfræðileyfi sálfræðinga nr. 158/1990. Fram til 1. janúar 2018 gátu þeir sem hófu sérfræðinám samkvæmt reglugerðinni frá 1990 lokið náminu í samræmi við ákvæði hennar.
Um handleiðslu og fræðilegt nám til sérfræðiviðurkenningar skv. reglugerð nr. 158/1990 er fjallað í 6. og 7. grein reglugerðarinnar. Þar koma fram atriði sem eru ekki alveg skýr í reglugerðinni heldur voru sett í hendur sérfræðileyfanefndar á vegum Embættis landlæknis, sem hefur nú verið lögð niður. Í Samantekt um kröfur til handleiðara vegna sérfræðiviðurkenningar er að finna betri útskýringar.
Umsókn um sérfræðiviðurkenningu:
Umsóknareyðublað um sérfræðiviðurkenningu er að finna á vef Landlæknisembættisins og umsókninni skal skilað til embættisins:
Embætti landlæknis
Barónsstíg 47
101 Reykjavík