Eftirfarandi var sent fjölmiðlum í lok síðustu viku vegna umræðu um þörf fyrir aukna sálfræðiþjónustu í skólum:
Sálfræðingafélag Íslands tekur heils hugar undir með þeim sem hafa að undanförnu vakið athygli á þörf framhaldsskólanema fyrir sálfræðiþjónustu. Börnum í grunnskóla er tryggt aðgengi að sálfræðiþjónustu en þegar grunnskólanum sleppir er aðgengi að þjónustu lítið sem ekkert, hvorki í framhaldsskólunum né í heilsugæslunni. Þannig er staðan þrátt fyrir að börnin verði ekki fullorðin fyrr en á öðru ári í framhaldsskóla.
Mikilvægt er að tryggja jafnræði í þjónustu við börn milli skólastiga. Börnum á grunnskólaaldri býðst grunn sálfræðiþjónusta af hálfu sveitarfélaganna, þó verulega vanti á að meðferðarúrræði (sem eru oftast á hendi ríkisins) séu nægjanleg en í framhaldsskólunum er hún nánast engin.
Fjárveitingar til framhaldsskóla eru minni á Íslandi en í mörgum OECD-löndunum og mun minni en til grunnskólanna. Öll börn eiga rétt á plássi í framhaldsskóla en hávær umræða hefur verið um mikið brottfall úr framhaldsskólunum. Margs konar tilfinningavandi eykst mjög á framhaldsskólaárunum og ljóst að dýrkeypt er, ef ekki er brugðist við honum með réttum hætti.
Ef rétt er á haldið verður að telja líklegt að betra aðgengi að sálfræðiþjónustu við börn upp að 18 ára aldri og ungmenni í framhaldsskólum muni skila sér í sparnaði til framtíðar, að ónefndum bættum lífsgæðum og betri líðan.