Read More »"/>

Fréttatilkynning vegna umræðu um niðurgreiðslur á þjónustu græðara

Heim / Fréttir / Fréttatilkynning vegna umræðu um niðurgreiðslur á þjónustu græðara

Sálfræðingafélag Íslands beinir þeim tilmælum til þingmanna að samþykkja ekki þingsályktunartillögu um að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanna á hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts.
Það er með öllu óásættanlegt að skattfé almennings verði notað til að greiða niður meðferðir sem ítrekað hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að hafi enga virkni umfram lyfleysu. Sér í lagi þegar þjónusta heilbrigðisstarfsstétta eins og sálfræðinga og tannlækna er ekki niðurgreidd þrátt fyrir að rannsóknir hafi margoft sýnt fram á gagnsemi þeirra aðferða sem þessar starfsstéttir nota öllu jafna.
Einn flutningsmaður tillögunnar ræddi hana í Kastljósi þann 3. desember síðastliðinn. Margt var við málflutninginn að athuga en Sálfræðingafélag Íslands vill sérstaklega mótmæla þeim fullyrðingum þingmanns í Kastljósi að ekki sé hægt að sanna að samtalsmeðferð sálfræðinga virki og að slík meðferð feli varla í sér lækningu heldur slái einungis á einkenni Til upplýsinga hafa t.d. 350 rannsóknir staðfest gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar sem er sú meðferð sem sálfræðingar nota í miklum mæli. Samtalsmeðferðir eins og áðurgreind meðferð geta einmitt læknað fólk af geðröskunum en ekki einungis slegið á einkenni. Með þessum ummælum eru vísindalegar rannsóknir ekki aðeins hunsaðar heldur vegið að starfsheiðri sálfræðinga.
Félagið hvetur þingmenn til að setja í forgang niðurgreiðslu gagnreyndra meðferða sálfræðinga, sem rannsóknir hafa sýnt fram á að eru þjóðhagslega hagkvæmar.

Tengdar færslur