Sálfræðingafélag Íslands sendi spurningar til allra flokka sem bjóða sig fram til Alþingis í komandi kosningum. Spurningarnar voru tvær og má sjá þær og svör þeirra stjórnmálaflokka sem hafa svarað hér fyrir neðan:
Spurning 1
Í reglugerð um sálfræðinga nr. 1130/2012, sem var gefin út í framhaldi af lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, kemur fram að kröfur til löggilds starfsleyfis sálfræðings eru auknar með ákvæði um eins árs starfsþjálfun, til viðbótar við að lágmarki fimm ára háskólanám. Reglugerðin er mikilvægur liður í því að tryggja gæði sálfræðiþjónustu og færir sálfræðinám á Íslandi jafnfætis námi sálfræðinga á Norðurlöndunum og öðrum Evrópulöndum sem við berum okkur saman við. Með ákvæðinu hafa stjórnvöld viðurkennt nauðsyn þess að gera sömu kröfur til sálfræðinga hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Nú er kominn upp sú staða að sálfræðingar sem útskrifast eftir sálfræðinám á Íslandi fá ekki starfsleyfi á hinum Norðurlöndunum vegna ákvæðis um starfsþjálfunarár. Hvernig ætlar ykkar stjórnmálaflokkur að framfylgja reglugerð þessari og tryggja að sálfræðinám á Íslandi uppfylli lágmarks gæðakröfur og verði sambærilegt sálfræðinámi á hinum Norðurlöndunum og annarra Evrópulanda sem við viljum bera okkur saman við?
Sjálfstæðisflokkurinn:
Eins og staðan er núna er starfsnám sálfræðinema takmarkað sem er bagalegt því margir fara að loknu meistaranámi að starfa á eigin stofu án þess að hafa til þess næga þjálfun sem bitnar á gæðum þjónustunnar. Þegar reglugerðin var sett var hugmyndin að sálfræðinemar myndu starfa inn á stofnunum í eitt ár að loknu meistaranámi, t.d. á Landspítala, heilsugæslunni, Reykjalundi, Grensás, Greiningar- og ráðgjafarstöð, sveitarfélögum, o.s.frv. Gera þarf ráð fyrir að kandidötum verði greiddur einhver lágmarkstaxti þetta ár.
Líklegt er að stofnanir séu tilbúnar til þess að taka á móti kandidötum enda gæti það í raun eflt þeirra þjónustu töluvert en vandinn er að með reglugerðinni fylgdi ekkert fjármagn fyrir kandidatstöður. Stofnanir þurfa að fá viðbótar fjármagn til að taka á móti kandidötum og greiða þeim laun. Ræða þarf aðkomu sveitarfélaga bæði hvort þau hafi möguleika á að taka á móti kandidötum og hvernig staðið verður að fjármögnun. En í stóra samhengi heilbrigðiskerfisins og áherslu á geðheilbrigðið er þetta mikilvægt mál, sem skilar sér með betur þjálfuðum sálfræðingum.
Sjálfstæðisflokkurinn mun því leggja áherslu að tryggja fjármagn fyrir nauðsynlegar kandidatstöður í klínískri sálfræði innan stofnana ríkisins þar sem sú fjárfesting myndi vera ein leið til að efla geðheilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu til bæði skamms og langs tíma.
Viðreisn:
Viðreisn leggur mikla áherslu á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu en sömuleiðis viljum við að á Íslandi fáist slík þjónusta af hæsta gæðaflokki og eigum að sjálfsögðu ekki að vera síðri en hin Norðurlöndin og önnur Evrópuríki. Þá þarf að hætta frestun gildistöku þessarar reglugerðar sem þið vísið til og fjármagna hana. Viðreisn telur að ríkið hafi ekki staðið við fjármögnun geðheilbrigðisþjónustu á mörgum sviðum og þetta fellur svo sannarlega þar undir. Við viljum einnig að háskólanám hér á landi sé samkeppnishæft erlendis. Við þökkum þessa mikilvægu áminningu og Viðreisn mun halda áfram í sinni stefnu að styðja við geðheilbrigðisþjónustu eins og við höfum verið að gera.
Samfylkingin:
Við teljum mikilvægt að þeim lögum og reglugerðum sem settar hafa verið sé fylgt eftir. Því miður virðist framkvæmd starfsnáms sálfræðinga hafa dregist úr hófi fram og teljum við því mikilvægt að koma því á sem fyrst, ekki síst í ljósi langra biðlista eftir þjónustu sálfræðinga. Áður en farið er af stað verður þó að huga vel að framkvæmd starfsársins og myndi Samfylkingin leggja áherslu á gott samstarf við fagfélög sálfræðinga varðandi það, bæði Sálfræðingafélag Íslands, Félag sérfræðinga í klínískri sálfræði og Félag sjálfstætt starfandi sálfræðinga, sem og sálfræðideildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, Heilsugæsluna, skólaþjónustusvið og aðrar viðeigandi stofnanir og geðþjónustueiningar um landið allt. Tryggja þarf fullnægjandi starfstöðvar, fjölda kandidatsstaða, skýrt skipulag námsins, það uppfylli viðeigandi kröfur og sé sambærilegt milli starfstöðva. Veita þarf fjármagni í þann undirbúning og áframhaldandi stöðugildi og framþróun. Tryggja þarf að námið framfylgi faglegum kröfum og gæðamati óháð starfsstöð og að viðeigandi klínísk handleiðsla og þjálfun sé til staðar. Þá þarf að huga að fjölda og gæðum þeirra starfsstöðva sem gætu boðið upp á stöðugildi fyrir kandidata og hvernig tryggja megi að þær fylgi samræmdum gæðakröfum námsins og hver eigi að hafa eftirlit með því. Samfylkingin myndi því vilja opna þá umræðu við fyrrgreind fagfélög, mismunandi starfstöðvar og sálfræðideildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.
Miðflokkurinn:
Sálfræðingar eru heilbrigðisstétt það er því á forræði viðkomandi ráðuneytis að framfylgja reglugerð og tryggja að við stöndum jafnfætis öðrum þjóðum þegar kemur að starfsþjálfun. Mjög margir sálfræðingar starfa sjálfstætt en það ætti ekki að koma í veg fyrir að þeir fái starsþjálfunarár. Spurning nr 1. tiltekur enn einu sinni það sem Miðflokkurinn hefur sagt heilbrigðiskerfið og sérstaklega geðheilbrigðiskerfið er í molum og þurfi algerrar endurskipulagningar á að halda. Það jákvæða er að sálfræðingar eru að störfum innan heilsugæslunnar sem er til bóta.
Píratar:
Píratar meta störf sálfræðinga að verðleikum. Því þykir okkur miður að ekki hafi verið lögð nægilega mikil áhersla á að sálfræðingar sem að mennta sig á Íslandi geti unnið erlendis. Af þeim sökum teljum við nauðsynlegt að nám í íslenskum háskólum uppfylli þau skilyrði sem að sett eru um starfsleyfi á Norðurlöndum. Mikilvægasta hlutverk stjórnmálamanna í þeim efnum er að tryggja fjármagnið svo það geti orðið að veruleika.
Jafnframt þarf að skoða til hlítar hvers vegna ekki sé byrjað að bjóða upp á kandídatsárið nú þegar. Vinna þarf markvisst að því að breyta þessu, sem mætti t.a.m. gera með því að styðja við sálfræðinga sem handleiða sálfræðinga á kandídatsári þeirra – sem og auðvitað sálfræðinga á kandídatsári sínu. Stofnanir hins opinbera gætu jafnframt leikið hlutverk með því að taka að sér sálfræðinga í handleiðslu á kandídatsárum þeirra. Það að klára eitt ár í handleiðslu áður en farið er út á vinnumarkað veitir almenningi meira vissu um faglega þjónustu, svo ekki sé talað um öryggi sálfræðingsins í þeirri meðferð sem að hann veitir. Þetta er því mikilvægur liður í að bæta þjónustu við einstaklinga og tryggja gæði.
Framsókn:
Framsókn hefur ekki farið með ráðuneyti heilbrigðismála eftir að reglugerðin var gefin út. Verði svo að Framsókn fái góða kosningu, komist í ríkistjórn og fái úthlutað heilbrigðisráðuneytinu þá er það vilji flokksins að tryggja sálfræðingum starfsþjálfun. Framsókn er opið fyrir því að kanna hvort hægt sé að beita sambærilegum úrræðum og beitt var til þess að bæta og efla iðnnám á landinu. Í dag er það á ábyrgð verkmenntaskólanna að iðnnemar komist á samninga og fái tilheyrandi réttindi og færni. Mögulega væri hægt að breyta fyrirkomulagi sálfræðináms þannig að skólanum beri að útvega verklega þjálfun undir leiðsögn sálfræðings á vinnustað sem Landlæknir viðurkennir. Þetta þyrfti þó að kanna til hlítar, kosti og galla og láta greina kostnað, áður en ráðist verði í aðgerðir. Það er þó sýn Framsóknar að sálfræðingar sem útskrifast á Íslandi eiga að standa jafnfætis sálfræðingum sem útskrifast á Norðurlöndunum.
VG:
Vinstrihreyfingin-grænt framboð hefur metnað til að bæta gæði náms á Íslandi svo að námskerfið í heild sinni sé á við það besta sem þekkist. Í því sambandi er mikilvægt að efla fjármögnun háskólastigsins í samræmi við stefnu VG í menntamálum. Einnig er mikilvægt að tryggja nægilegt framboð af sérfræðingum eins og sálfræðingum svo bæta megi aðgengi geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Spurning 2
Staða staðlaðra greindarprófa og annarra þroskaprófa á Íslandi er í miklum ólestri. Prófin sem eru m.a. notuð á stofnunum ríkisins og eru mikilvægur hluti af mati á ýmsum þroskafrávikum og fötlunum eru úrelt og samningar við útgefendur um leyfi til notkunar þeirra fyrir löngu útrunnið. Menntamálastofnun tók yfir málefni Námsmatsstofnunar árið 2015 en sagði sig frá umsjón þegar útgefinna prófa og stöðlun nýrra prófa. Síðan hefur enginn haft leyfi umsýslu með þessum prófum hérlendis. Sálfræðingar hafa frá árinu 2016 ítrekað vakið athygli á alvarleika málsins og skýrslu sem var unnin af starfshópi á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytis var skilað til ráðherra sumarið 2019. Þrátt fyrir þetta hefur málinu ekki enn verið komið í viðunandi farveg. Án staðlaðra prófa verður mat á ýmsum þroskafrávikum og fötlunum ónákvæmt og ekki í samræmi við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Niðurstöður úreltra þroskaprófa geta leitt til rangra greininga þannig haft áhrif á þá þjónustu sem börnin njóta, þannig er brotið á rétti barna sem þurfa á þjónustu fagaðila og hinna ýmissa þjónustukerfa að halda. Áframhaldandi notkun prófanna án leyfis er einnig brot á höfundarétti útgefenda og gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, bæði í samstarfi Íslendinga við fagaðila erlendis og fjárhagslegar afleiðingar vegna ólögmætrar notkunar. Unnið hefur verið að þessu verkefni innan ráðuneyta heilbrigðis og menntamála en ekki hefur tekist að koma því í höfn. Líklega vegna þess að ekki hefur fundist fjármagn til þess. Hvernig ætlar ykkar stjórnmálaflokkur að koma þessu mikilvæga máli öruggan farveg?
Sjálfstæðisflokkurinn:
Þetta er alvarlegt mál og hefur verið lengi. Það var skilgreint fjármagn fyrir þennan málaflokk en með skipulagsbreytingum þar sem Menntamálastofnun tók við þessu verkefni þá féll þetta því miður milli skips og bryggju.
Þessum málum þarf að koma fyrir á viðeigandi stað t.d. hjá háskólastofnunum eða öðrum stofnunum sem hafa þekkingu og getu til að sinna þessu og sjá um að viðeigandi leyfi væri fyrir notkun prófanna, þau væru þýdd og stöðluð rétt.
Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja sitt af mörkum til að finna heimahöfn fyrir greindar- og þroskapróf á Íslandi sem hefði forræði yfir þessum málaflokki og tryggja nægt fjármagn svo að greindar- og þroskapróf á Íslandi séu í ásættanlegum farvegi.
Bæði þessi mál eru þess eðlis að þau falla algjörlega að stefnu Sjálfstæðisflokksins á sviði mennta- og heilbrigðismála.
Viðreisn:
Takk fyrir þessa góðu ábendingu og brýningu. Viðreisn styður að vísindaleg þekking liggi til grundvallar mikilvægra ákvarðana, sem á vissulega við um notkun greindar- og þroskaprófa. Sérstaklega í ljósi þess að skýrsla liggur fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem greinir vandann myndum við vilja þrýsta á ráðuneytið að fylgja þessu máli vandlega eftir.
Samfylkingin:
Samfylkingin tekur undir mikilægi þess að ríkisstofnanir fylgi lögum og reglum varðandi nýtingu mælitækja og veiti viðeigandi þjónustu. Það er því ljóst að gömul og jafnvel ómarktæk mælitæki uppfylla ekki þær kröfur. Því miður hefur þetta málefni ekki borið á borð Samfylkingarinnar áður og óskum við því eftir nánari upplýsingum frá Sálfræðingafélagi Íslands um núverandi stöðu þessa og niðurstöður ofangreindrar skýrslu. Engu að síður verður í fljótu bragði ekki betur séð en nauðsynlegt sé að fjármagn fyrir kaupum á leyfi þeirra prófa sem um ræðir verði tryggt og við teljum að Landlæknisembættinu eða eftir atvikum Menntamálastofnun verði gert að taka málið í sínar hendur, tryggja þýðingu, stöðlun og staðfæringu prófanna að því marki sem mögulegt er. Embætti landlæknis skal hafa eftirlit með heilbrigðisstarfssemi, þar á meðal hjá sálfræðingum og því er líkast til best að þetta verk verði hjá því embætti. Sjáum við fyrir okkur að það yrði gert í samvinnu við sálfræðideildir HÍ og HR, klíníska sérfræðinga og stofnanir á viðeigandi sviðum og mögulega samvinnu við önnur Norðurlönd svo sem varðandi stöðlun.
Miðflokkurinn:
Málefni barna og sérstaklega drengja eru mikilvæg. Miðflokkurinn hefur ítrekað bent á, má þar nefna greinar og skrif Karls Gauta Hjaltasonar, eru í ólestri. Innan Miðflokksins er mikill vilji til að börn fái rétta greiningu. Til þess þarf örugglega fjármagn en sá kostnaður skilar sér alltaf annars staðar og á endanum er sparnaður í því að börn fái rétta greiningu. Það þarf ekki að tíunda það samfélagslega tjón sem hlýst af því að missa ungmenni af réttri braut því er fullur vilji innan Miðflokksins til að styðja við málaflokkinn með auknu fjármagni ef með þarf.
Píratar:
Við þurfum að hafa góð og aðgengileg greiningartæki. Annað hvort fjárfestum við í aðlögun, þýðingu, stöðlun og staðfæringu á erlendum greiningarprófum eða þá að við byggjum á núverandi þekkingu og hönnum okkar eigin með opnu leyfi. Aðalmálið er að prófin séu aðgengileg og nothæf og því er mikilvægt að fara strax í að laga þessa stöðu. Þá sér í lagi vegna þess að margt í okkar þjónustu er byggt á stöðu einstaklings í þroskaprófum.
Það er algjörlega óviðunandi að verið sé að nota ófullnægjandi próf sem að geta greint fólk með þroskaraskanir sem að ekki hafa þær eða, það sem er enn alvarlegra, að það sé ekki verið að greina fólk með þroskaröskun sem þó er með hana. Sá einstaklingur fær þá ekki þá þjónustu sem að honum ber. Píratar gera sér grein fyrir alvarleika stöðunnar og skilja að hér er heilsa og rétt þjónusta við einstakling í húfi. Þetta mál má ekki bíða, því að meðan á biðinni stendur brjótum við áfram á réttindum borgara og gröfum undan trausti almennings til greiningarferlisins.
Framsókn:
Framsókn telur að rétt stöðluð og uppfærð matstæki séu mikilvæg undirstaða réttmætrar og áreiðanlegrar greiningar á vanda einstaklings. Greiningin opnar dyr að sérhæfðri þjónustu og leggur grunn að viðeigandi íhlutun, þjálfun, kennslu og meðferð og stuðlar þannig að betri framtíðarhorfum fyrir einstaklinginn.
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknar hefur leitt þessa vinnu að miklu leyti, og í ráðuneyti mennta- og menningarmála hefur þegar farið fram umfangsmikil vinna við að bæta stöðuna hér á landi. Fyrir liggur verk-, tíma- og kostnaðaráætlun fyrir verkefnið sem nær til stöðlunar á tveimur prófum á alls fjórum árum. Grundvallaratriði er að einn framkvæmdaaðili verði ábyrgur fyrir öllum verkþáttum og eru ráðherrar mennta- og heilbrigðismála sammála um að leita til Prófastofu heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um að taka að sér verkefnið.
Ráðherra hefur þegar falið Háskóla Íslands að taka að sér verkefnið, en ljóst er að fjármagn hefur skort bæði í heilbrigðis- og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Um er að ræð á fjórða hundrað milljón króna verkefni og Framsóknar leggur mikla áherslu að klára fjármögnun verkefnisins hið allra fyrsta.
VG:
VG telur að endurskoða þurfi skimunarpróf og staðlaða mælikvarða, þar á meðal vitsmuna- og þroskapróf, til að styðja við einstaklingsmiðað nám og áherslur aðalnámskrár.