Read More »"/>

Vegna fjölmiðlaumræðu um sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Home / Fréttir / Vegna fjölmiðlaumræðu um sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Reykjavík 18. nóvember 2022

Vegna fjölmiðlaumræðu um sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Stjórn Sálfræðingafélags Íslands (SÍ) lýsti yfir þungum áhyggjum af skipulagsbreytingum á sálfræðiþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) þann 22. mars síðastliðinn, sem þá höfðu nýlega verið kynntar starfsfólki HH. SÍ hefur fundið fyrir óánægju frá sálfræðingum HH allar götur síðan. Þessari óánægju er lýst frekar í grein frá Félagi sálfræðinga í heilsugæslu sem birt var á www.visir.is miðvikudaginn 15. nóvember. Stjórn SÍ telur það áhyggjuefni hve ólíkur skilningur sálfræðinga og stjórnenda HH er á því hvað felist í aðkomu sálfræðinga að skipulagi sálfræðiþjónustu og að sama skapi hve ólík upplifun þessa aðila er á stöðu sálfræðiþjónustu hjá HH. Sálfræðingafélag Íslands vísar í fyrri yfirlýsingu sína sem á jafn vel við í dag og þá.

„Stjórn Sálfræðingafélags Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirra skipulagsbreytinga á sálfræðiþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sem kynntar hafa verið starfsfólki HH.
Mikil og þörf uppbygging hefur átt sér stað á sálfræðiþjónustu innan HH á síðustu árum meðal annars undir stjórn fagstjóra sálfræðiþjónustunnar. Nú hefur staða fagstjóra verið lögð niður og með því hætt faglegri samhæfingu vinnubragða sálfræðinga á milli starfsstöðva sem hefur lagt grunn að þeim góða árangri sem náðst hefur í sálfræðiþjónustu hjá HH. Slíkar breytingar munu fyrst og fremst bitna á þjónustu við almenning. Er um mikla afturför geðheilbrigðisþjónustu að ræða og sterkar líkur á að draga muni úr aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð. Sálfræðingafélag Íslands skorar á HH að halda áfram þeirri góðu og metnaðarfullu uppbyggingu á sálfræðiþjónustu sem verið hefur síðustu ár undir stjórn sálfræðings í stöðu fagstjóra þannig að tryggt verði

  • að sjúklingar sem leita til heilsugæslunnar fái greiðan aðgang að gagnreyndri sálfræðilegri meðferð
  • að sálfræðiþjónustan verði samhæfð þvert á einstakar heilsugæslustöðvar þannig að sjúklingar sem leita til heilsugæslunnar hafi aðgang að allri þeirri færni sem í boði er hjá starfsliði sálfræðinga í heilsugæslukerfinu í heild
  • að handleiðsla, endurmenntun og starfsþróun sálfræðinga mæti þjónustuþörfum allra skjólstæðinga heilsugæslunnar
  • að viðeigandi gæðaeftirlit og gæðaþróun sé tryggð í öllu heilsugæslukerfinu þannig að sjúklingar eigi jafnan kost á bestu fáanlegu sálfræðilegri meðferð.“

Fyrir hönd stjórnar Sálfræðingafélags Íslands

Tryggvi Ingason, formaður

yfirlysing HH nov 2022

Related Posts